Færsluflokkur: Löggæsla

Forvarnarstarf í fíkniefnamálum

Nú hefur samband ungra sjálfstæðismanna opnað á virkilega þarfa umræðu um fíkniefnavandann. Þeir leggja fram vel rökstudda tillögu um að afnema eigi refsistefnu stjórnvalda gegn fíkniefnamisferli. Mér þykir það óskaplega miður hve margir töldu sig ekki þurfa að kynna sér þetta efni á nokkurn hátt og voru tilbúnir til að opinbera vanhugsaðar vangaveltur sínar um að nú hljóti Valhöll að vera fljótandi í kókaíni, eða framtíðin væri ekki björt ef þetta væru stjórnmálamenn framtíðarinnar og svo framvegis.

Jóhannes Stefánsson vann ákaflega merkilega BA ritgerð í lögfræði sem ber titilinn "Refsistefna í fíkniefnalöggjöf: blessun eða böl?".

Enn verr þykir mér þó að sumir hverjir sem vinna að forvarnarmálum fyrir unglingana okkar skuli stíga fram og halda uppi órökstuddum fullyrðingar og þvættingi sem er til þess fallinn að unglingar okkar missa trú og traust til þeirra er sinna slíkum störfum.

Með tilkomu internets er ekki lengur hægt að halda uppi ósannindum í þeim tilgangi að hræða fólk frá málefnum.

Ég heyrði viðtal við forvarnarráðgjafa í þættinum "Reykjavík síðdegis" á bylgjunni. Þessi maður hikar ekki við að tjá sig um hugmyndir og tillögur sem eru settar fram, án þess að lesa þær og kynna sér, líkt og hann viðurkennir sjálfur í viðtalinu. Í fyrsta lagi fjallar tillagan ekki um lögleiðingu, heldur afnám refsistefnu. Færa fíkniefnavandann frá því að vera löggæsluvandamál yfir í að vera heilbrigðisvandamál.

Hann segir hlustendur Bylgjunnar vera skynsamt fólk fyrir að vera á móti slíku. Þessi maður er líklega sá eini sem telur skynsamlegt að kynna sér ekki málið, og reynslu annara þjóða.

Það þarf ekki að leggja sig mikið fram til að átta sig á að refsistefnan er meginástæða þess að fíkniefni séu dýr. Fólk vill fá greitt í þessum bransa sem öðrum fyrir áhættuna sem það er að taka á sig. Refsistefnan er að kosta framleiðendur, sölumenn og neytendur vímuefna töluvert fé með sektum, fangelsisdómum og upptöku efnanna. Þetta fé greiða neytendur með hærra verði. Á þessum markaði gilda nákvæmlega sömu lögmál og á öðrum markaði, eftirspurn kallar á framboð, minna framboð hækkar verð. Stefna stjórnvalda með refsilöggjöf gengur eingöngu út á að takmarka framboð. Þessi forvarnarráðgjafi er sá fyrsti og eini sem ég hef heyrt halda því fram að ólögleg framleiðsla og sala fíkniefna skili sér í lægra verði.

Kostnaði við fíkniefnameðferð er svo slegin fram í þessu viðtali, og þar er kostnaðurinn sagður við hverja meðferð vera á bilinu 10 til 20 milljónir íslenskra króna. Auðvitað brá mér allverulega við þessar tölur, með Google að vopni var ég á innan við 3 mínútum kominn með ársrit SÁÁ fyrir árin 2007 til 2010. Á blaðsíðu 14 í þessu riti stendur „Hver meðferð á Vogi kostar 271.000 kr á árinu 2009. Hver eftirmeðferð á Vík eða Staðarfelli 383.000 kr á árinu 2009". Ef ég legg saman þessar tölur þá fæ ég út 654.000 kr. Það er langur vegur frá 10 milljónum, hvað þá 20 milljónum. Hvað gengur þessum manni til með svona þvættingi? Hvers vegna reynir hann að draga úr trú á skilvirkni meðferðarstofnana?

Önnur fullyrðing mannsins er að neysla muni margfaldast ef refsistefnunni sé aflétt. Röksemdarfærsla þessa mann er sú að auðveldara aðgengi að fíkniefnum auki neysluna. Fyrr í sama viðtali var hann búinn að segja að 11 ára skólabörnum standi þessum efnum til boða inn á skólalóðum. Ég skil ekki hvernig hægt er að auka aðgengi meira en það! Portugalar afnámu refsingar við vörslu neysluskammta og neyslu allra ólöglegra vímefna árið 2001. 10 árum síðar koma í ljós merkilegar tölur. Fjöldi barna á aldrinum 13 til 15 ára sem höfðu einhvern tímann neytt þessara vímuefna fækkaði úr 14% í 10.6%. Neysla þeirra á aldrinum 15 til 18 ára minnkaði úr 27.6% í 21.6%. Þessi forvarnarráðgjafi taldi sig þekkja reynslu annara þjóða, og samt staðhæfir hann að neysla muni margfaldast. Heimildir mínar fyrir þessum tölum er að finna á blaðsíðum 46 og 47 í áðurnefndri ritgerð um refsistefnu í vímuefnamálum.

„Við erum að sjá kannabis í annarri hverri mynd, ef ekki bara hverri". Það þarf svo sannarlega ekki mikið til að hrekja staðhæfingu um að kannabis efni séu í hverri mynd, það er klár þvættingur eins og svo margt annað sem þessi maður hefur fram að færa. Ég fann engar tölur með stuttri leit minni og veit ekki hvaðan hann hefur þessar staðhæfingar sínar, ég leyfi mér þó að efast um að 50% kvikmynda innihaldi kannabis þar til annað kemur í ljós, en hlutfallið er klárlega ekki 100%.

Í öðru viðtali við þennan sama mann heldur hann áfram þvælu sinni og rangfærslum. Það viðtal var í þættinum "Ísland í bítið" á Bylgjunni.

Þar segir hann að sé ekkert mál fyrir unglinga að komast í þessi efni, og talar þar af leiðandi sjálfur en gegn sinni fullyrðingu um að neysla muni margfaldast sökum aukins aðgengis. Honum ber þó gæfa til að vita að svo framarlega sem það er eftirspurn, þá mun vera framboð.

Í þessu viðtali slengir hann fram að kannabis neyslu auki líkur á geðklofaeinkennum um 40%. Það er vægast sagt ógnvænleg tala þannig enn og aftur er Google slegið upp í vafra. Þar finn ég tengil inn vefsíðu landlæknisembættisins. Þar stendur „Algengi geðklofasýki (skitsofreníu) er lágt eða um 1% og er merkilega stöðugt bæði milli landa og yfir tíma. Þekkt yfirlitsgrein  Moore og félaga sem birtist í Lancet 2007 frá bendir til þess að áhætta fólks að fá geðklofasýki aukist ef það notar kannbis. Odds ratio að fá geðklofasýki miðað við þá sem ekki nota kannabis er 1.41 í þessari rannsókn, en vikmörk 1,20-1,65, sem þýðir að fólk hafi um 40% auknar líkur miðað við fólk almennt  til að fá geðklofa ef það hefur neytt kannabis (þ e nálægt því að líkurnar aukast úr 1% í 1,4%) og að munurinn er tölfræðilega marktækur (15). Meiri líkur voru á geðklofa hjá fólki sem notaði cannabis í miklu magni.Gegn orsakatengslum talar hins vegar að þrátt fyrir almenna aukningu á notkun kannabisefna helst tíðni geðklofa, eins og áður sagði,  svipuð og var á þeim tíma sem kannabisnotkun var óalgeng."

Aukningin er því um 0.4 prósentustig. Fjöldi sjúklinga stendur í stað þrátt fyrir aukna neyslu kannabis. Þarf virkilega að leggja sig svo mikið fram til að komast að þeirri niðurstöðu að slíkir sjúklingar séu líklegri til að neyta kannabisefna? Það er í það minnsta algjörlega ómögulegt að draga þá ályktun að kannabisneysla auki líkur á geðklofa um 40%.

Er það virkilega ósanngjörn krafa að þeir sem tala við unglinga okkar, kalla sig forvarnarráðgjafa og ráði sig til starfa í þessum málaflokki vandi til verka? Ég efast ekki um að þessi tiltekni maður vilji vel og ég er fullkomlega meðvitaður um að hann er að sinna erfiðum málaflokki. En ég frábið mér málflutning manna sem gera illt verra, þessi maður fellur í þá gryfju. Við búum á upplýsingatækniöld þar sem hræðsluáróður með lygum og staðreyndavillum gengur ekki upp. Unglingar lands okkar er vel gefið fólk.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband