10.3.2012 | 18:48
Á ég að prufa fíkniefni?
Þessari spurningu er fljótsvarað, nei, það á enginn að prufa slík efni, en þá aldeilis vandast málið, því svo afdráttarlausum svörum fylgir yfirleitt önnur spurning, það er af hverju ekki?
Það er við þeirri spurningu þar sem flest fer úrskeiðis í baráttunni við fíkniefni. Menn voru býsna fljótir að átta sig á því að fíkn er alvarlegt vandamál sem hefur slæmar afleiðingar á þann sem er haldinn þeim sjúkdómi. Þannig að raunverulegt svar er óskaplega einfalt. Þú átt ekki að prufa fíkniefni vegna þess að þér gæti fundist það of gott. En hver þorir að segja barninu sínu það?
Til að koma í veg fyrir neyslu þessara efna, og ekki síst til að þurfa ekkia ð segja börnum sannleikann sem við teljum óhollan, þá brá mannskepnan á það ráð að útlista fyrir fólki hversu óskaplega skaðleg þessi efni séu fyrir líkama, sál, og ekki síst samfélagið. Þetta gerist á tímum þar sem aðgengi að upplýsingum var ákaflega takmarkað. Stjórnvöld gátu á auðveldan hátt ritskoðað og stýrt upplýsingagjöf til almennings að eigin geðþótta. Sannleikurinn fær yfirleitt að víkja þegar svo er, tilgangurinn helgar víst meðalið. Það dugði ekki til, þá var brugðið á annað ráð til að hræða fólk frá neyslu með löggjöf til refsa þeim sem nota þessi efni, með sektarboðum og fangelsisvistun. Nú átti að segja börnunum að þau væru glæpamenn ef þau létu tilleiðast.
Nú eru þó breyttir tímar, upplýsingagjöf hefur að miklu leyti færst af höndum fárra manna sem auðvelt var að stjórna af hálfu yfirvalda, til almennings. Þar spilar internetið vitaskuld stærstu rulluna. Nú hafa hópar sem eru ástfangir af sínu fíkniefni og sjá ekkert illt við þau, sama tækifæri til að koma sínum boðskap á framfæri og þeir sem finna efnunum allt til foráttu. Skynsamt fólk fetar svo milliveginn á þessum upplýsingum og reynir að taka fremur mark á upplýsingum frá rannsóknum sem eru framkvæmdar á vísindalegan hátt. Allt ofstæki, í hvora áttina fyrir sig, er orðið skaðlegt fyrir hvorn málstaðinn sem er.
Yfirvaldið sér þó enn að megninu til um vísindalegt starf. Fræðimenn sem sinna rannsóknum gera það að mestu leyti á forræði ríkisstofnana, hvort sem það eru beinar rannsóknarstofnanir, eða innan háskólastarfs. Megnið af þeim rannsóknum eru gerðar með fjármunum stjórnvalda. Það gefur stjórnvöldum yfirhöndina þar sem þau geta að miklu leyti stýrt slíkum rannsóknum og fengið þannig að vissu leyti þær niðurstöður sem þeim hentar.
En hvað sem því líður, þá er sífellt að komast upp um slík vinnubrögð. Eitt sérstaklega óskammfeilið dæmi um slíkt er þegar Ronald Reagan bandaríkjaforseti upplýsti á blaðamannafundi að samkvæmt áreiðanlegustu vísindalegu rannsóknum, þá sé varanlegur heilaskaði óumflýjanleg afleiðing kannabisneyslu. Þessi málflutningur hélt ansi lengi velli og var, eða jafnvel er, notaður í hræðsuáróðri gegn slíkri neyslu.
Í þessari rannsókn voru apar látnir reykja 30 jónur á dag. Eftir um 90 daga fóru svo þessum öpum að hrörna allverulega og deyja. Þá var höfuð þeirra opnað og dauðar heilafrumur taldar. Því næst voru reyklausir apar drepnir og sama gert við þá. Það fór ekki á milli mála að reykingaraparnir gnæfðu svo yfir hina í þeim tölum, að þeir voru meira en lítið þroskaheftir þegar þeir létu lífið greyin.
En upplýsingum um hvernig þessari rannsókn var háttað, var haldið leyndu eins lengi og hægt var, en að lokum bárust upplýsingar, sláandi upplýsingar. Í ljós kemur að þessir apar voru bundnir í stól, á þá sett súrefnisgríma, og á 5 mínútum var kannabisreyk sem innihélt koltvísýring að jafngildi úr 63 jónum af sterkustu gerð þröngvað ofan í apana í gegnum þessar grímur. Enginn partur af þessum reyk fór til spillis, heldur allt ofan í lungu þeirra. Þessi apagrey voru einfaldlega kæfð til að fá rétta niðurstöðu. Það er löngu þekkt hvaða áhrif súrefnisskortur hefur á heilafrumur.
Við erum því miður enn of föst í þessum vinnubrögðum, og er sífellt að komast upp um svona vinnubrögð, þó kannski ekki jafn afgerandi og í þessari rannsókn. Þetta berum við í börnin okkar þrátt fyrir allt, og þó við vitum hve auðvelt aðgengi þau eiga að upplýsingum sem hrekja slíkan málflutning.
Hverjar eru svo afleiðingar af þessum hræðsuáróðri, sem upp kemst að er svik? Hvað þykir okkur um málflutning sumra kirkjunnar manna um að samkynhneigð þóknist ekki guði vorum, sé dauðasynd, að refsing guðs sé óumflýjanleg afleiðing slíks hátternis? Eða að guð smelli á slíkt fólk svo sem einu stykki af alnæmi? Hvað þykir okkur í dag um áróður líkt og að sjálfsfróun orsaki blindu? Mikilvægasta spurning er, hver eru viðbrögð þeirra sem þessi áróður beinist að?
Forvarnarstarf á Íslandi virðist því miður einkennast af þessum málflutningi, sem ég tel vera algjört ábyrgðarleysi, hættu á að snúa áhættuhópum gegn sér og þannig í raun vera hvatning til neyslu. Við höfum ýmis góð og gild slagorð til forvarna, Hættu áður en þú byrjar", Segðu nei" og svo framvegis. Allt miðar að því sama, þér gæti fundist fíkniefni góð, því áttu ekki að prófa. Berum virðingu fyrir börnunum okkar og segjum þeim af hverju, ekki ljúga að þeim, þau eru mun skynsamari en við höldum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.